Hvað er HIV/EYÐNI (Alnæmi)?

EYÐNI/AIDS (Alnæmi) orsakast af veiru sem nefnd er hiv (human immunodeficiency virus). Veiran ræðst m.a. gegn hluta hvítu blóðkornanna og getur leynst lengi án þess að valda sjúkdómseinkennum. Líkaminn myndar mótefni gegn veirunni og eru þau mælanleg í blóðinu. Hiv-sýking er óvenjuleg að því leyti að varnir líkamans geta ekki ráðið niðurlögum hennar og veiran skemmir ónæmiskerfi líkamans. Ef varnarkerfi líkamans starfar óeðlilega, eins og gerist með tímanum við hiv-sýkingu, getur líkaminn ekki varist örverum sem venjulega eru skaðlitlar eða skaðlausar.
Smitleiðir
Hiv er yfirleitt ekki bráðsmitandi en smit getur átt sér stað á þrjá vegu: Við samfarir, með blóðblöndun, t.d. með menguðum sprautum og nálum eða ef sýkt blóð kemst í opin sár, og þá getur veiran einnig borist frá móður til fósturs.

Algengast er að hiv smiti við samfarir, annað hvort milli karla og kvenna eða milli karla. Fíkniefnaneytendur eru í mikilli smithættu ef fleiri en einn nota sömu sprautunálina. Engin smithætta er í daglegum samskiptum. Hættulaust er að heilsa smituðum með handabandi eða að faðmast. Hósti og hnerri valda ekki smiti. Hiv smitar hvorki með mat eða drykk og ekki heldur með matarílátum.

Enda þótt veiran finnist aðallega í blóði, sæðisvökva og í vökva frá leggöngum verður ekki smit þótt vökvarnir komist í snertingu við húð nema þeir komist í opin sár. Slímhúðir eru mun viðkvæmari en húð og er því miklu meiri hætta á smiti ef þessir vökvar komast á þær. Talið er að aðrir kynsjúkdómar sem valda sárum og ígerðum á kynfærum, s.s. herpes, lekandi, klamydia og sárasótt, geti auðveldað hiv-smit.

Einkenni
Flestir sem smitast eru einkennalausir í byrjun. Stundum sjást þó bráð en stuttvarandi einkenni eins og eitlabólgur, hálssærindi og flensulík einkenni og jafnvel heilahimnubólga. Á síðari stigum sjúkdómsins, sem oft verður fyrst vart mörgum árum eftir smit, gætir ýmissa einkenna, svo sem viðvarandi eitlastækkana, m.a. undir höndum og á hálsi, nætursvita, langdregins hita, kvíða og þunglyndis, svo nokkuð sé nefnt. Svokallað lokastig sjúkdómsins hefur verið nefnt EYÐNI/AIDS (alnæmi). Það einkennist yfirleitt af óvenjulegum sýkingum sem sjást yfirleitt ekki nema hjá einstaklingum með verulega skert ónæmiskerfi. Þegar svo er komið sögu geta sjúklingar fengið svæsnar lungnabólgur, sýkingar í miðtaugakerfi, langdreginn niðurgang, lystarleysi og megrast verulega. Sjúklingar með alnæmi geta einnig fengið sjaldgæfar tegundir af krabbameinum. Algengast þeirra er svokallað Kaposis sarkmein. Sést það oftast sem fjólubláir blettir eða skellur á húð.

Greining
Hiv-smit er greint með blóðprufu. Niðurstöður slíks prófs fást eftir nokkra daga.

Meðferð
Engin raunveruleg lækning er til við EYÐNI/AIDS enn sem komið er. Á hinn bóginn hafa komið fram lyf sem geta haldið veirunni í skefjum og þar með dregið verulega úr líkum á því að sjúkdómseinkenni komi fram. Þannig má í mörgum tilfellum bæta líðan og lengja líf hiv-smitaðra. Lyfjameðferðin þarf að vera ævlöng og ennþá veldur hún aukaverkunum hjá sumum.

 
Deila á Facebook
Til baka
© Lífsýn  |  Digranesvegi 12  | 200 Kópavogi  |  Kt. 510111-0600  |  Simi: 771-4474  |  lifsyn@lifsyn.is