Hvað er ástar og kynlífsfíkn

Ástar og kynlífsfíkn.  Hvað er það eiginlega? Hvernig er hægt að vera sjúkur eða sjúk í ást eða kynlíf ? er búið að skilgreina allt sem fíkn og má ekkert lengur, ekki einu sinni vilja fara í samband eða fá sér  á broddinn ?
Að bregðast við með því að fara í netta vörn hljóta að vera eðlileg viðbrögð manneskju sem heyrir í fyrsta sinn minnst á ástar og kynlífsfíkn, enda virðist þessi áratugur sem við lifum núna með endemum litaður af allskonar vandamálaskilgreiningum sem enginn hefur áður heyrt um.  Halldór Laxness blessaður sagði í einhverri bókinni að mannkynið ætti ekki að farast úr sálgreiningum og sýfilis og það er kannski ekki svo langt frá sannleikanum nú á gullöld geðlyfja og lauslætis.  Þrátt fyrir það má alveg skoða ástar og kynlífsfíknar fyrirbærið betur því að á sama tíma og ótrúlegustu sálarástönd eru orðinn vandamál verður ekki undan því litið að daginn út og inn er haldið að okkur margskonar ástar og kynlífsáróðri sem erfitt er að loka augunum fyrir.  Bíómyndir, sjónvarpsþættir og dægurlagatextar hamra á því að ástin sé málið og það sé ekki hægt að lifa hamingjusamur án þess að finna sér maka og stunda kynlíf eins og kynbótanaut.  Þá sé maður hálfur kálfur og allt í klessu.  Kynlífsaldan í fjölmiðlum hefur einnig orðið til þess að menn eru farnir að fletta klámi á netinu meðan þeir borða rúnstykkið og einkaritararnir lesa um snípsáburði á femin.is.  eðlilega hljóta að verða margskonar afleiðingar af þessu bæði góðar og slæmar og maður væri bara vitlaus að reyna að horfa framhjá því.

Kynlífsfíkn :

Kynlífsfíkn er til á mörgum stigum og birtingarmyndir hennar eru allt frá þráhyggjukenndri sjálfsfróun til kynferðisglæpa, en núna ætlum við bara að skoða það sem er kallað fyrsta stigs kynlífsfíkn, en með því er átt við kynferðishegðun þar sem enginn er fórnarlamb í lagalegum skilningi þess orðs.  Kynlífsfíkill sem ekki er orðinn svo langt leiddur að hann sé farinn að stunda beina kynferðisglæpi getur stundað strippklúbba, skoðað klámblöð og klámmyndir.  Hann getur fróað sér fram úr hófi, keypt sér vændi, stundað margendurtekið “ einnar nætur gaman “ eða átt marga bólfélaga.  Einnig getur hann dvalið langtímum saman á spjallrásum á netinu, stundað símasex  og svo mætti lengi telja.  Kynlífsfíkillinn getur fundið sig í einu eða mörgum þessara atriða en hegðun hans er þráhyggju, endurtekinn og henni er stjórnað af fíkn.  Það sem í upphafi einkenndist af forvitni og smá spennu er nú orðið að þráhyggju, sektarkennd, sjálfsréttlætingum og tilfinningalega ruglandi ástandi.  Þetta fer að taka meiri og meiri tíma í lífi fíkilsins, jafnvel þótt “kikkið” sem hann fær út úr þessu verði minna og minna.

Ástarfíkn :

Við sjáum ást eða rómantíska ást sem grundvallar undirstöðu þess að við höfum áhuga á því að fara í alvarlegt samband við aðra manneskju.  Ef það er enginn rómantík í loftinu og okkur finnst við ekki vera ástfanginn þá er ekki líklegt að það sé hjónaband eða sambúð á næsta leyti.  Að vera ástfanginn er ástand sem lætur manni líða eins og maður sé hátt uppi, í ástarvímu, alsælu. maður fær aukinn kraft og veröldin breytir um lit.  Ástin verður að fíkn þegar þessi tilfinning sem á sér stað í upphafi sambands verður að markmiði.  Þegar einstaklingurinn verður háður fyrstu dögunum þegar þú getur setið og horft endalaust inn í augun á hinum aðilanum án þess að þurfa endilega að segja neitt.  Þegar það bara að heyra röddina á símsvaranum verður til þess að hjartað taki kipp.  Þegar kossarnir láta þig svífa og þú hugsar ekki um annað en hann eða hana.  Fólk getur orðið háð þessum breytingum og þær verða m.a. til þess að fíknin snýr lyklinum og fer í gang.

Ást og kynlíf fara hönd í hönd.  Þegar við erum ástfanginn þá stundum við oftar en ekki kynlíf með viðkomandi og það kynlíf köllum við að “elskast”.  Fyrir kynlífs og ástarfíkillinn verður hinsvegar kynlíf innan ástarsambands fljótlega þreytandi og leiðinlegt.  Um leið og hormónarnir hætta að pumpast útí blóðið með sama krafti og í byrjun þá hættir þetta fljótlega að vera fjör.  Vímutilfinningin dofnar og raunveruleg vinna innan sambandsins þarf að byrja að eiga sér stað.  Þá leitar kynlífsfíkillinn fljótt inn á sín svið, ástarfíkillinn fer að horfa í aðrar áttir og fíknaferlið fer aftur í gang.  Vonin sem ástarfíkillinn ól í brjósti sér um að nýja sambandið yrði það síðasta deyr og ástarfíkillinn situr uppi með bömmerinn, skömmina, missinn og sektakenndina.

MERKI UM BATA

1. Við leitumst eftir að ná daglega sambandi /mynda daglega tengsl við Æðri Mátt og trúum því að við séum ekki ein í baráttunni við ástar – og kynlífsfíkn.
2. Við þorum að vera auðsærð/varnarlaus þar sem Æðri Máttur hefur gert okkur kleift að treysta að nýju
3. Einn dag í einu sleppum við tökunum á lífsmynstri okkar og þráhyggjunni varðandi rómantík, kynlífssambönd og tilfinningalega meðvirkni
4. Við lærum að forðast aðstæður sem geta reynst okkur hættulegar líkamlega, andlega og siðferðilega.
5. Við lærum að taka okkur sjálf í sátt og elska okkur eins og við erum, að taka ábyrgð á eigin lífi og að sinna okkar eigin þörfum áður en við aðstoðum aðra
6. Við verðum fús til að biðja um hjálp og leyfum okkur að vera varnarlaus, treysta öðrum og taka þeim eins og þeir eru.
7. Við leyfum okkur að vinna í gegnum sársaukann sem fylgir lágu sjálfsmati, ótta við ábyrgð og að vera yfirgefin. Við lærum að njóta þess að vera ein.
8. Við tökum galla okkar og mistök sem hluta af því að vera manneskjur og "læknum" skömm okkar og fullkomnunaráráttu um leið og við vinnum með persónueinkenni okkar.
9. Við notum heiðarleika við að tjá tilfinningar okkar í stað sjálfseyðileggjandi leiða 10. Við verðum heiðarleg í tjáningu okkar á sjálfum okkur og sköpum raunverulega nánd í samskiptum okkar við aðra og okkur sjálf.
11. Við lærum að meta kynlíf sem afleiðingu af trausti, samvinnu, virðingu, nánd og vináttu 12. Á hverjum degi verðum við heilbrigðari með því að taka þátt í bataferlinu.

SJÁLFSKÖNNUN SLAA

Til þess að glöggva þig betur á því hvort ástar- og kynlífsfíkn sé vandamál sem þú ættir að skoða betur má prófa að svara þessum krossaspurningum. Það er engin sérstök niðurstaða eða úrskurður, en ef þú ert með marga krossa í já reytinum þá er ansi líklegt að þú mættir fara að hugleiða þessi mál.
1. Hefurðu reynt að stjórna því hversu oft þú hittir ákveðna manneskju eða hversu mikið kynlíf þú stundar?
2. Hefur þér þótt erfitt að slíta sambandi, jafnvel þó að sambandið sé eyðileggjandi fyrir þig og láti þér líða illa?
3. Reynirðu að halda ástar og kynlífsmálum þínum leyndum fyrir öðrum?
4. Kemstu í „vímu” af ástar og kynlífi?
5. Hefur þú stundað kynlíf á óviðeigandi tímum, óviðeigandi stöðum eða með óviðeigandi fólki?
6. Reynirðu að setja þér reglur eða gefurðu sjálfum/sjálfri þér loforð í sambandi við ástar eða kynlíf þitt sem þú getur ekki farið eftir?
7. Hefur þú stundað kynlíf með manneskju sem þig langaði ekki til að stunda kynlíf með?
8. Trúir þú því að kynlíf og/eða samband eigi eftir að gera líf þitt þolanlegra?
9. Hefur þér einhverntíman liðið eins og þú yrðir að stunda kynlíf?
10. Trúir þú því að einhver geti „lagað” þig?
11. Reynirðu, eða hefur þú reynt, að halda tölu yfir rekkjunauta þína með því að skrifa hjá þér lista eða annað?
12. Finnur þú fyrir örvæntingu eða óróleika þegar þú ert aðskilin/n frá rekkjunauti þínum eða elskhuga?
13. Ertu búin að missa töluna yfir rekkjunauta þína, eða hversu mörgum þú hefur sofið hjá?
14. Finnurðu fyrir örvæntingu þegar þú hugsar um þörf þína til að finna þér elskhuga, fá kynferðislegt “fix” eða finna framtíðar maka?
15. Hefur þú stundað óábyrgt kynlíf, án þess að hugsa um afleiðingarnar þ.e. án þess að leiða hugann að því að þú gætir fengið herpes, lekanda, getið barn, orðið ólétt o.s.frv.?
16. Finnst þér þú alltaf vera að “lenda” í lélegum samböndum?
17. Finnst þér að eini, eða aðal kostur þinn í sambandi sé hversu góður rekkjunautur þú ert eða hæfileiki þinn til að veita hinum aðilanum tilfinningalegt “fix”?
18. Finnst þér eins og þú sért ekki alveg “lifandi” nema þú sért með maka þínum eða bólfélaga?
19. Finnst þér þú eiga rétt á kynlífi?
20. Ertu í sambandi sem þú getur ekki slitið þótt þig langi til þess?
21. Hefur þú einhverntíman ógnað fjárhagslegu öryggi þínu eða stöðu þinni í samfélaginu þegar þú reynir að komast yfir kynlífsfélaga?
22. Trúirðu því að vandræði í “ástarlífi” þínu stafi af því að þú ert alltaf með “röngu” manneskjunni?
23. Hefur þú einhverntíma ógnað eða eyðilagt alvöru samband sem þú hefur verið í út af kynlífshegðun þinni utan sambandsins?
24. Fyndist þér lífið tilgangslaust ef þú gætir hvorki lifað kynlífi né verið í ástarsambandi?
25. Daðrar þú eða kemur af stað kynferðislegri spennu við fólk, jafnvel þótt þú ætlir þér það ekki?
26. Hefur kynhegðun þín eða sambandshegðun haft áhrif á orðspor þitt?
27. Kemurðu þér í “sambönd” eða stundarðu kynlíf til að forðast vandamál í lífinu?
28. Líður þér illa yfir sjálfsfróun þinni, hversu oft þú fróar þér, fantasíunum sem þú notar eða hlutum?
29. Tekur þú þátt í einhverskonar gægjum eða ertu með sýniþörf sem lætur þér líða illa?
30. Finnst þér eins og þú þarfnist aukinnar tilbreytingar í kynlífi eða samböndum til að losa um líkamlega eða tilfinningalega spennu?
31. Þarft þú að stunda kynlíf eða “verða ástfanginn” til að þér líði eins og “alvöru” manni eða konu?
32. Finnst þér eins og kynferðishegðun þín og ástarlíf beri ekki árangur sem erfiði? 33. Áttu í erfiðleikum með að einbeita þér að öðrum sviðum lífsins vegna þess að kynlífs eða ástarsambönd þín (hugsanir og tilfinningar) taka frá þér orku?
34. Stendurðu þig að því að vera í þráhyggju gagnvart ákveðinni persónu eða kynlífsupplifun jafnvel þó að það valdi þér óþægindum, tilfinningalegum sársauka eða fíkn?
35. Hefurðu einhverntíman óskað þess að þú gætir hætt einhverri kynferðislegri hegðun eða sambandi í ákveðinn tíma?
36. Finnst þér eins og tilfinningalegur sársauki í lífi þínu fari vaxandi, sama hvað þú gerir?
37. Finnst þér eins og þú hafir ekki heilbrigða sjálfsmynd?
38. Finnst þér kynhegðun þín og sambönd/samband trufla andlegt líf þitt á neikvæðan hátt?
39. Finnst þér erfitt að ráða við líf þitt sökum þess að þú ert að verða tilfinningalega háðari öðrum í vaxandi mæli?
40. Hefur þú einhverntíman hugsað að það gæti orðið meira úr þér og þú gætir fengið meira út úr lífinu ef þú værir ekki svo knúin/n af þörf þinni fyrir kynlíf og sambönd?

Ekki örvænta það er hægt að redda þessu! Bataferlið frá þessum fíknum er það sama og við flestum öðrum fíknum tólf spora kerfi AA samtakanna hefur dugað til að drekkja allskonar vandamálum og fíknum og ástar og kynlífsfíkn er þar enginn undantekning.
Fyrsta skrefið er að viðurkenna að það sé vandamál fyrir hendi.  Með því að vera hreinskilinn við sjálfan sig opnast gáttir inn í sálarlífið og það er útgönguleiðin úr vandanum.  Fíkillinn veður að sjá hvernig þunglyndi hans, stress, kvíði og aðrar óþægilegar tilfinningar eiga rætur sínar að rekja til þessarar þráhyggjuhegðunar og með því getur hann byrjað að sleikja sárin það er hægt að fara á spjallrás á netinu þar sem fólk  sem hefur fundið sig í þessu hittist og reynir að leysa vandann í sameiningu.  Einnig er hægt að komast í beint samband við manneskju sem hefur komið sér út úr vítahringnum og hún deilir með þér reynslu sinni og styrk.  Sálfræðingar geta líka hjálpað og þeir eru jú bara í símskránni.

Heimild: M.a. úr bókinni Hvað er málið frá JPV útgáfu.

 

Deila á Facebook
Til baka
© Lífsýn  |  Digranesvegi 12  | 200 Kópavogi  |  Kt. 510111-0600  |  Simi: 771-4474  |  lifsyn@lifsyn.is